Klifursvæði

KLETTAKLIFURSVÆÐI Á ÍSLANDI:
allavega þau helstu 

 

Sauratindar við Álftafjörð
Í boði Stefáns Kristjánssonar og Rúnars Óla.

Sauratindar standa ofan við Súðavík við vestanverðan Álftafjörð. Tindarnir eru leifar gamallar megineldstöðvar og teygja sig upp í 841 m y.s.

Fjórar leiðir hafa verið klifraðar upp kletta efst í tindunum og tvær þeirra boltaðar. Klettar þessir vísa í suðaustur, eru allt að 70 m háir og halla aðeins frá lóðréttu.

Rúnar Óli, Jökull Bergmann, Gregory og Árni Gunnar boltuðu sportleiðirnar árið 1997. Þær eru tvær spannir og um 5.9. Austari leiðin ber nafnið Prima Noche.

Stefán Steinar og Dagur Halldórsson opnuðu aðra dótaleiðina, 1997. Hún er rétt norðan við boltuðu línurnar, ber nafnið City Slickers og er gráðuð 5.7/5.8. Fyrsta klettaleiðin í Sauratindum var opnuð 1995. það voru Eiríkur Gíslason, Ragnar Þrastarson, Ólafur Th Árnason og Hörður Harðarson sem frumfóru hana.

Enginn leiðarvísir er til af svæðinu en hægt er að lesa meira um það í ársriti ÍSALP frá 1997. Svo getur Ísfirðingurinn Rúnar Óli Karlsson eflaust gefið betri upplýsingar um svæðið.

Hafa ber í huga að svæðið er alvarlegt og hjálmar nauðsynlegir.

 

Gýgjarsporshamar í Hrafnsfirði
Í boði Stefáns Steinars Smárasonar og Stefáns Kristjánssonar.

Gýgjarsporshamar er 214 m hár gígtappi í botni Hrafnsfjarðar. Sagt er að far eftir tröllkonu sé þrykkt í hamarinn ofanverðan.

Á Vestfjarðavefnum segir svo um hamarinn:
Gýgjarsporshamar er sagður vera stærsta álfabyggð á Vestfjörðum. Þar er kaupstaður álfa með kirkju og fjölmörgum bæjum. Var talið að líkt og í mannabyggðum kæmu þangað álfaskip með nauðsynjar frá Ísafirði. Þegar gufuskip Ásgeirsverslunar á Ísafirði komu inn Hrafnfjörð með vörur frá Kaupmannahöfn fylgdu álfaskip ávallt í kjölfarið.

Og Vestfjarðavefurinn heldur áfram:
Hrafnsfjörður er í botni Jökulfjarða og í botni hans eru mörk friðlands Hornstranda. Beggja vegna fjarðarins standa há fjöll, klettagirt að ofanverðu en skriðurunnin neðra. Yst í firðinum sunnan megin er Kjósarnes sem aðskilur fjörðinn frá Leirufirði.

Tvær fjölspanna leiðir hafa verið boltaðar í sunnanverðum Hamrinum: Píkutorfan, 5.9-5.10d og Fjölskyldumannafélagsleiðin, 5.9-5.10b. Stefán Steinar, Rúnar Óli, Árni Gunnar og ívar Freyr unnu leiðirnar á árunum 1999-2001. Það voru svo Rúnar óLi og Stefán Steinar sem frumfóru þær. Leiðirnar eru báðar fjórar spannir og 100 m langar.

Hægt er að komast í Hrafnsfjörð með báti frá Ísafirði eða með því að keyra upp á Dalsheiði og ganga þaðan.

Leiðarvísir af Hamrinum er í ársriti ÍSALP frá 2001-2002 (16. tölublaði).

Fyrstu spannirnar í báðum leiðum eru lausar í sér og óþægilegar og því eru hjálmar nauðsynlegir.

 

Norðurfjörður á Ströndum
Í boði Stefáns Steinars Smárasonar.

Norðurfjörður er einn nyrsti akfæri fjörðurinn á Ströndum, rétt norðan Trékyllisvíkur. Undir Krossnesfjalli, norðan megin í firðinum, er heillegt klettabelti sem veit móti suðri. Þar hefur Stefán Steinar séð um boltun nokkurra klifurleiða frá því sumarið 2003. Ábúendur á Steinstúni og Munaðarnesi hafa góðfúslega veitt leyfir fyrir boltun gegn góðri umgengni um svæðið. Varast ber að ganga yfir berjaland við Steinstún.

Búið er að bolta og hreinsa 4 leiðir. Leiðirnar hafa verið gráðaðar 5.9-5.10c og eru 15-18 m langar.

Enginn leiðarvísir er enn til af svæðinu þannig að best er að nálgast allar upplýsingar um leiðir hjá Stefáni Steinari.

Athugið svæðið hentar ekki fyrir byrjendur þar sem leiðir eru í vinnslu og hætt getur verið við grjóthruni. Hjálmar eru nauðsynlegir í Norðurfirði.

Ferðafélag Íslands er með skála í Norðurfirði og þar er líka tjaldstæði. Á norðanverðu Krossnesi er lítil útisundlaug í fjöruborðinu, kölluð Krossneslaug.

 

Skinnhúfuklettar, Vatnsdal
Í boði Björns Baldurssonar.

Skinnhúfuklettar nefnist lítið klettabelti í austanverðurm Vatnsdal, rétt sunnan við stór og glæsileg stuðlabergsþil. Klettarnir eru nokkuð þéttir í sér og var fyrst klifrað í þeim vorið 1989 og gengu þá undir nafninu Sárabót.

Til þess að komast að klettunum er nyrðri afleggjari út frá þjóðvegi eitt inn í Vatnsdal ekinn, austan Vatnsdalsár, suður fyrir bæinn Hvamm. Þá blasa klettarnir við og tekur aðeins nokkrar mínútur að ganga að þeim.

Að minnsta kosti 14 leiðir hafa verið boltaðar í klettunum og eru flestar merktar inn í leiðarvísi ÍSALP nr. 24, en hann er til uppfærður í Klifurhúsinu. Erfiðleikagráður leiðanna eru frá 5.8 upp í 5.13b.

Skinnhúfuklettar Vatnsdal. Ljósm: Hjalti Rafn.


Munkaþverárgil í Eyjafirði
Í boði Björns Baldurssonar og Sveins Friðriks Sveinssonar.

Munkaþverárgil er í austanverðum Eyjafirði. Eftir gilbotninum rennur Þverá. Þar skammt frá er stórbýlið og kirkjustaðurinn Munkaþverá, en talið er að Sighvatur Sturluson, sonur hans Sturla og aðrir sem féllu í Örlygsstaðabardaga séu grafnir þar.

Klifurleiðirnar eru í föstu bergi norðan í gilinu og er hægt að brölta eftir stíg niður í gilið vestan við klettabeltið. Í gilinu hafa um 20 leiðir verið klifraðar, bæði í dóti og boltum. Leiðirnar eru 10 til 12 m langar og frá 5.5 upp í 5.12d.

Leiðarvísir af svæðinu var gefinn út í ársriti ÍSALP frá 1988 og kallast leiðarvísir nr. 23 og er smíði Páls Sveinssonar. Þar er 11 leiðum lýst. Síðan þá hefur talsvert bæst við af leiðum og uppfærði Jón Haukur Steingrímsson leiðarvísinn árið 2003. Uppfærðan leiðarvísi með 22 staðsettum leiðum má nálgast á vefsíðu ÍSALP: Munkaþverá.

 

Vestrahorn
Í boði Stefáns Kristjánssonar.

Fjallið Vestrahorn stendur milli Hornsvíkur og Papóss við opið úthaf um 10 km austan Hafnar í Hornafirði. Fjallið er berghleyfur úr gabbrói og er því eitt af fáum djúpbergsfjöllum hér á landi. Vestrahorn nær hæst 454 m y.s. og hét áður Eystrahorn!

Tvær fjölspannaleiðir hafa verið klifraðar upp suður og austur hliðar Vestrahorns. LeiðinÓdysseifur var opnuð 1998. Leiðin er 400 m löng og um 200 lóðréttir metrar og er erfiðust um 5.8. Leiðina unnu Snævarr Guðmundsson og Guðjón Snær Steindórsson á árunum 1995-1998 og fóru samtals 40 boltar í hana. Leiðarlýsingu má finna í ársriti ÍSALP nr. 15 frá 2000.

Saurgat Satans er boltuð, 7 spanna leið, smíð þeirra Hrapps Magnússonar og Rafns Emilssonar. Hún er um 150 m löng og var frumfarin sumarið 2004. Flestar spannirnar eru um 5.10. Nákvæma leiðarlýsingu má finna á vefsíðu ÍSALP.

Hafa ver í huga að svæðið er all alvarlegt. Hjálmar eru nauðsyn þar sem hætta er á grjóthruni -ekki er mælt með svæðinu fyrir byrjendur.

Við suður rætur fjallsins og í fjörunni má einnig finna talsvert af gabbró hnullungum sem hægt er að glíma við. Þeir stærstu á stærð við fimm hæða fjölbýlishús.

 

Hnappavellir í Öræfasveit
Í boði Kristínar Mörthu.

Hnappavellir eru stærsta sportklifur og grjótglímusvæðið á Íslandi, enn sem komið er. Þar var fyrst klifrað árið 1986 og fyrstu leiðirnar boltaðar 1989. Alls eru um 100 boltaðar leiðir í hömrunum Á svæðinu hafa líka fjölmargar sprungur verið klifraðar í dóti.

Klifursvæðið skiptist í allnokkur samfelld klettabelti. Landsvæðið er í eigu Hnappavallabænda sem hafa góðfúslega leyft klifrurum að bolta og klifra á svæðinu. Góð umgengni um svæðið er algjör forsenda fyrir góðu sambýli við ábúendur.

Leiðirnar eru milli 8 og 20 m langar og frá 5.4 upp í 5.13d. Flestar þeirra eru 5.8-5.12. Leiðarvísir var gefinn út af svæðinu í sérprenti ÍSALP nr. 24 frá 1994. Leiðarvísirinn er smíði þeirra Björns Baldussonar og Snævarrs Guðmundssonar. Ný klifurhandbók af Hnappavöllum var gefin út vorið 2008. Bókin er smíði Jóns Viðars Sigurðssonar og Stefáns STeinars Smárasonar og fæst í afgreiðslu Klifurhússins. Klifurhandbókin er einkar glæsileg og prýða hana fjöldi litmynda frá því klifur hófst á Völlunum.

Hér má nálgast sýnishorn af opnum 10-11 og 40-41:
opna10-11.pdfopna40-41.pdf


Miðskjól á Hnappavöllum. Ljósmynd: HemmiSig.

Grjótglímurnar eru af öllum stærðum, gerðum og erfiðleikum og eru fjölbreyttari en á flestum öðrum grjótglímusvæðum á landinu.

 

Búhamrar í Esju
Í boði Kristínar Mörthu, Bjössa og Óla Ragga.

Búhamrar eru klettabelti sunnan í Esjunni, rétt vestan Þverfellshorns. Þar hafa bæði kletta og ísleiðir verið klifraðar.

Bergið í hömrunum er hart og stökkt og á það til að molna og eru leiðirnar því lausar í sér og ráðlegt að nota hjálma.

Helstu klettaleiðir sem klifraðar hafa verið í boltum sem og dóti eru merktar inn á myndina hér að neðan og má fá upp stærri mynd með því að smella á þessa. Skárstu leiðirnar hafa fengið stjörnu. Um þær má lesa nánar í ársritum ÍSALP frá: ´85, ´90 og ´92.

Í Fílabeinsturninum hafa leiðirnar Helgríma og Vítisbjöllur verið klifraðar. Vestan þeirra eru tvær óklifraðar og óhreinsaðar leiðir sem þó hafa verið boltaðar og austan við Vítisbjöllur er ein slík leið.

Til þess að komast að Fílabeinsturninum hefur kaðall verið boltaður upp að leiðunum, en æskilegt er að nota eigin línu því kaðallinn er gamall. Ennþá eldri kaðall liggur upp að Mefisto. Athugið, boltarnir í Mefisto gætu verið orðnir varasamir. Til þess að komast upp að leiðunum við Nálina þarf að brölta eða tryggja sig upp á syllu eða síga niður á sylluna úr sigakkeri fyrir ofan Gandreið.

Fleiri auðveldari klettaleiðir og ísleiðir hafa verið farnar upp Búhamra. Um þær má lesa í leiðarvísi ÍSALP nr. 20, Esjunni.

Búhamrar í sunnanverðri Esju, vestan Þverfellshorns. Tvíburafoss sést vestast á myndinn. Ljósmynd: Kristín Martha.

 

Valshamar í Eilífsdal
Í boði Kristínar Mörthu og HemmaSig.

Í leiðavísi ÍSALP nr. 24 er m.a. fjallað um Valshamar. Þar kemur eftirfarandi fram:

Valshamar í Eilífsdal er lítill klettastapi í vesturhlíðum Þórnýartinds. Þar hefur verið klifrað síðan 1978 en árið 1987 litu fyrstu boltuðu leiðirnar dagsins ljós. Eru það fyrstu klifurleiðirnar á Íslandi sem voru boltaðar… Bergið er 15-20 m hátt en nær sjaldnast lóðréttu.

Erfiðleikar leiða í Valshamri eru frá 5.4 og upp í 5.11. Mikið er af léttum leiðum og hafa bæst talsvert margar léttar leiðir í safnið síðustu ár. Svæðið er því byrjendavænasta svæði landsins.

Sökum nálægðar við borgina er Valshamar líklega best nýtta klifursvæði landsins. Vegna nálægðar hamarsins við sumarbústaðasvæðið í Eilífsdal hefur verið samið um aðkomu klettaklifrara að hamrinum. Beygt er til vinstri við ruslagámana áður en farið er í gegnum hliðið inn í sumarbústaðalandið og ekinn slóði útfyrir nyrsta bústaðinn. Þar er bílnum lagt og gengið meðfram girðingunni og að hamrinum. Eitthvað er af stóru gróti á slóðanum sem þarf að fjarlægja til að allra minnstu bílarnir komist hann.

Við eigum von á að skilti verði sett upp við veginn sem vísar veginn. MIKILVÆGT er að allir gangi vel um svæðið og að engin læti séu að kvöldlagi uppi við klettana svo samkomulag við sumarbústaðaeigendur haldist gott.

Valshamar í Eilífsdal, norðan Esju. Ljósmynd: HemmiSig.


Gerðuberg á Snæfellsnesi
Í boði Stefáns Steinars, Kristjáns Þórs og Hjalta Rafns.

Gerðuberg nefnist grágrýtisstuðlaberg á sunnanverðu Snæfellsnesi. Stuðlabergið er eitt það lengsta á landinu og er staðsett rétt við kirkjustaðinn Ytra-Rauðamel á innanverðu Nesinu.

Stuðlarnir í Gerðubergi eru hæstir um 10 m en víðast lægri. Í Gerðubergi hafa allflestar spennandi sprungur verið klifraðar með dóti. Einnig hafa menn klifrað utanverða stuðlana í ofanvaði. Sprungurnar hafa fengið erfiðleikagráður frá 5.4 – 5.11. Utan á stuðlunum geta leiðirnar orðið erfiðari en bjóða upp á skemmtilegt klifur.

Alllangt er orðið síðan þar var klifrað fyrst og muna elstu menn ekki lengur hvaða leið heitir hvað (oft talað um að þeir Sel-Þórir frændur hafi dundað sér þar við kvöldklifur á gullöld íslensks sprunguklifurs). Mjög gott er að tryggja sprungurnar með spennikömbum en einnig er hægt að koma inn hnetum og þess háttar dóti. Sigboltar eru á nokkrum vel völdum stöðum ofan á berginu.

Enginn leiðarvísir hefur verið gefinn út af svæðinu en Sigurður Tómas Þórisson hefur sett saman drög að leiðarvísi af sprunguklifrinu. Drögin má nálgast í gegnum vefsíðu ÍSALP:Gerðuberg.

Gerðuberg á Snæfellsnesi. Ljósm: Hjalti Rafn.

 

Stardalshnúkur í Mosfellsdal
Í boði Jóns Hauks.

Stardalur er efst í Mosfellsdal, rétt vestan við Skálafell. Stardalshnúkur er þar mest áberandi í þyrpingu stuðlaðra smáhnúka. Stardalshnúkur veit í suður og er nokkurra mínútna gangur upp skriðu að hömrunum.

Í Stardalshnúk hefur verið klifrað síðan 1978 og þar eru nú hátt á 100 leiðir. Leiðirnar eru milli 7 og 40 m langar og frá 5.3 upp í 5.11d. Flestar þeirra eru 5.5-5.8 og 15-20 m að lengd. Á svæðinu er eingöngu tryggt með dóti en einnig er auðvelt að setja upp ofanvað. Leiðarvísir var gefinn út af svæðinu í sérprenti ÍSALP nr. 21 frá 1986. Leiðarvísirinn er smíði þeirra Björns Vilhjálmssonar og Snævarrs Guðmundssonar. Síðan hann var gefinn út hafa allnokkrar leiðir bæst inn í.

Í leiðarvísinum kemur fram að Stardalshnúkar eru leifar gamallar megineldstöðvar sem náði um mestallan Mosfellsdal. Hnúkarnir eru eins konar innskot úr grófkornóttu dóleríti og eru stuðlarnir allt að 2 m í þvermál vegna hægrar kólnunar. Lóðréttar sprungur milli stuðlanna gefa góða tryggingarmöguleika

 

Fallastakkanöf í Suðursveit
Í boði Björns Baldurssonar og Stefáns Steinars Smárasonar.

Efst í Borghafnarfjall í mynni Kálfafellsdals í Suðursveit stendur Fallastakkanöf, eitt stórfenglegasta stuðlaberg á landinu. Nafnið fallastakkur er samlíking við fallastakk á hval sem er rákótta spikkápan á kviði hvalsins. Stuðlarnir eru blágrýtisstuðlar sem eru allt að 90 m háir. Í neðri hluta Fallastakkanafar er blágrýtið fast fyrir en verður lausara og varasamara efst.

Fallastakkanöf blasir við frá Þjóðvegi 1 en um hálftíma gangur upp grasbrekku er að Nöfinni.

Í austur (suðaustur) hluta Fallastakkanafar hefur leiðin Orgelpípurnar verið klifruð í dóti. Það voru Doug Scott og Snævarr Guðmundsson sem frumfóru hana árið 1985. Leiðin er þrjár spannir og fékk gráðuna 5.10, 5.10, 5.9. Heyrst hefur að þarna gætu verið erfiðustu 5.10-ur á landinu. Leiðinni er lýst í ársritum ÍSALP frá 1986 og 1988.

Þeir Björn Baldursson og Árni Gunnar klifruðu eina og hálfa spönn í ókláraðri leið rétt vestan við Orgelpípurnar (sjá forsíðumynd í ársriti ÍSALP frá 1997).

Í vestari hluta Fallastakkanafar eru sprungurnar óaðgengilegri fyrir fríklifur en þar stigaklifruðu Guðmundur Helgi Cristensen og Guðmundur Tómasson leiðina Grjótregn árið 2001. Hún er gráðuð A2 og er tvær spannir. Guðmundur Tómasson og Styrmir Steingrímsson luku við að stigaklifra Hangikjötið fyrr á sama ári. Hún er þrjár spannir og gráðuð A1++. Báðum leiðunum er lýst í ársriti ÍSALP frá 2001-2002 (16. tölublað).

 

Vaðalfjöll í Barðarstrandasýslu
Í boði Sissa og Hemma Sig.

Vaðalfjöll eru í austanverðum Þorskafirði í Barðarstrandasýslu. Þau eru í hánorður frá Bjarkarlundi í Reykhólasveit. Þar ber mest á tveimur ca. 100 metra háum stuðlabergsstöndum, sem tróna yfir heiðinni. Þetta eru ævagamlir gígtappar úr blágrýti, sem er harðara en umhverfið og hafa því veðrast hægar.

Á svæðinu er klifrað með náttúrulegum tryggingum. Enginn leiðarvísir er til yfir svæðið.

 

Einstæðingur í Jósepsdal
Í boði Stínu Mörthu og Hjalti Rafns.

Steinninn Einstæðingur býr í Jósepsdal undir austanverðu Vífilsfelli. Við hann hefur verið glímt síðan 2001. Heill hellingur af grjóti er svo uppi í hlíðinni ofan steinsins. Byrjað var að klifra í þeim grjótum sumarið 2007.

Vegur inn í Jósepsdal er beint í suður frá Litlu Kaffistofunni, en um Jósepsdal lá alfaraleið milli Reykjavíkur og Ölfuss.

Um Jósepsdal keyra nú jeppamenn og menn með byssur og skjóta á flöskur. Því er soldið af glerbrotum í sandinum undir steininum. Einnig fer ekki framhjá neinum að Jósepsdal hefur verið umturnað í æfingasvæði fyrir mótorcross hjól. Steinninn er annars skemmtilegur og hægt að klifra á öllum hliðum hans.


Bjarnarfjörður á Ströndum
Í boði Hjalta Rafns.

Bjarnarfjörður er vestur á Ströndum ekki svo langt frá Hólmavík. Klettarnir eru norðvestan megin í firðinum, beint á móti Kaldrananesi. Akstur frá Reykjavík tekur um það bil þrjár klukkustundir og hálftíma að auki. Klettarnir eru rétt fyrir ofan veginn í lyngvaxinni hlíð og skiptast í nokkur lág klettabelti á tveimur stöllum um það bil.

Klettarnir eru í sól nær allan daginn þegar sólar nýtur og það er skjólsælt við þá. Klettarnir eru frá tveimur metrum að sex metrum á hæð. Brött brekka er undir sumum þannig að sá sem er fyrir neðan til þess að grípa verður að vera vel vakandi. Gott er að vera með dýnu með sér til þess að lenda á, skaflarnir endast ekki allt sumarið. Dýnan hlífir líka gróðrinum. Bæði hafa verið gerðar hliðranir og leiðir sem liggja upp í klettunum. Enn sem komið er heita allar leiðir sem farnar hafa verið nöfnum sem tengjast Norðurhlið Eiger á einhvern hátt. Leiðirnar hafa ekki ennþá fengið neinar gráður því við höfum alltaf verið svo önnum kafin við að klifra að gráðun hefur orðið útundan. Leiðirnar eru af öllum gerðum og af öllum erfiðleikum þannig að allir ættu að geta fundið sér grjót að glíma við.

í Bjarnarfirði er mikið af fuglum sem verpa í móum og niðri í fjöru. Klifrarar ættu að taka tillit til þeirra og finna sér annað grjót ef hreiður eða ungar eru nærri. Rusl fer allt aftur til mannabyggða .

Það eru nokkur tjaldsvæði í nágrenninu. En það er líka örugglega allt í lagi að gista ofan í fjöru.

 

Steinafjall í Suðursveit
Í boði Rafns Emilssonar.

Undir Steinafjalli við Steinasand í Suðursveit, rétt norðan þjóðvegar eitt eru grjót sem dottið hafa úr fjallinu. Þar rétt hjá er Hali þar sem Þórbergur Þórðarson ólst upp. Næsti dalur til austurs er Kálfafellsdalur en þar fyrir ofan er einmitt Borghafnarfjall með Fallastakkanöf -sem er önnur saga.

Undir Steinafjalli hefur verið klifrað allavega síðan 1999. Steinarnir eru frekar lokaðir svo þrautirnar eru margar í erfiðari kantinum. Í dag hafa um 50 þrautir verið klifraðar og flestar fengið nafn.

Nýjustu þrautirnar eru slöbin Formleg og Ferhyrnd. En höfundur mælir með þrautum á borð við Eins og í fokking Fontainbleau og Gluteus maximus. Enginn leiðarvísir er til af svæðinu.