Ábyrgðaryfirlýsing
Klifurfélags Reykjavíkur
Hér með staðfestist að ég hef kynnt mér, á fullnægjandi hátt eftirfarandi reglur vegna viðveru minnar í Klifurhúsinu:
Allir eru á eigin ábyrgð í Klifurhúsinu. Viðvera mín í Klifurhúsinu er alfarið á eigin ábyrgð hvort sem um er að ræða klifursali eða æfingarsvæði. Ég samþykki að ég ber ábyrgð á tjóni sem ég veld á búnaði eða öðrum einstaklingum vegna hegðunar sem fer gegn reglum hússins eða leiðbeiningum starfsfólks hússins. Ég geri mér grein fyrir því að hugsanleg ábyrgð Klifurhússins gagnvart mér getur eingöngu byggst á saknæmri háttsemi starfsmanna Klifurhússins. Ég geri mér grein fyrir því að forráðamenn bera ábyrgð á börnum á þeirra vegum.
Reglur og öryggisatriði. Ég staðfesti að ég hef kynnt mér reglur Klifurhússins. Ég staðfesti að ég mun fylgja reglum hússins og þeim leiðbeiningum sem starfsfólk Klifurhússins mun koma til með að færa mér eða eru mér sýnilegar innan veggja Klifurhússins.
Brot á reglum. Ég staðfesti að mér er kunnugt um að starfsmenn áskilja sér þann rétt að vísa mér á brott, án endurgjalds ef ég verð uppvís um brot á reglum Klifurhússins eða annari ámælisverðri hegðun.
Umferð um dýnur skal halda í lágmarki. Ég staðfesti hér að mér er kunnugt um að stranglega bannað sé að hoppa, hlaupa og hvíla sig á dýnunum. Ég gæti þess sérstaklega að standa ekki undir klifrurum þar sem þeir geta dottið fyrirvaralaust og erfitt er að spá fyrir um lendingarstað. Ég gæti þess einnig að stíga aðeins á dýnur þegar gengið er að klifurleið, að öðrum kosti skal bíða fyrir utan þær.
Ábyrgð á eigin munum. Ég samþykki að ég beri ábyrgð á persónulegum munum mínum innan veggja Klifurhússins, svo sem síma, veski, fjármunum, yfirhöfnum o.þ.h. Klifurhúsið tekur ekki ábyrgð á lausamunum mínum sem glatast eða er stolið innan veggja Klifurhússins.
Notkun áfengis- og vímuefna er óheimil. Ég staðfesti að ég er ekki undir áhrifum áfengis- og vímuefna innan veggja Klifurhússins.
Öryggismyndavélar. Ég er upplýst/ur um að Klifurhúsið er vaktað með myndavélum til að tryggja öryggi iðkenda í samræmi við gildandi persónuverndarlög.
Staðfesting. Með undirritun minni (foreldrar eða ábyrgðaraðilar í tilviki barna), veiti ég samþykki mitt og staðfestingu á yfirlýsingu þessari. Yfirlýsing þessi er einungis til notkunar fyrir Klifurhúsið, gætt verður trúnaðar um hana og hún ekki afhent 3. aðila nema að undangengnum dómi eða lagaboði. Vistun og meðferð upplýsinga þessa fer eftir gildandi lögum um persónuvernd.