Spurt & svarað

Hér má finna algengar spurningar um Klifurhúsið, grjótglímu ofl og svör við þeim.

Hvað er Grjótglíma?

Grjótglíma er klifur sem er án línu þar sem klifurhæðin fer sjaldnast yfir 6m. Í Klifurhúsinu er eingöngu klifur upp í 4 metra.

Grjótglíma er íslenska fyrir “Bouldering” á ensku. Það gengur fyrst og fremst út á að finna stóra steina (ekki fjöll, ekki endilega kletta) og klifra upp án hjálparbúnaðar – Í klifurhúsinu eru engir steinar eða klettar, svo við klifrum fyrst og fremst upp veggi.

Ég sendi tölvupóst fyrir 5 mín. hvenær fæ ég svar?

Tölvupósti og fyrirspurnum er svarað einu sinni á dag alla virka daga, semsagt ekki um helgar.

Póstkort

Klifurhúsið elskar að fá send póstkort frá öllum börnunum sínum sem eru úti í hinum stóra heimi að vinna gríðarleg klifurafrek, eða í sólbaði …

Ok, ef þetta sem er í Klifurhúsinu er grjótglíma, hvað er þá þetta þar sem maður er í bandi/línu?

Algengasta klifur í línu er svokallað “sportklifur” (eða línuklifur) – það er ekkert meira “sport” en grjótglíma (þetta er eingöngu heiti) – en það gengur út á að klifra aðeins hærra (8-60m) og er þá alltaf klifrað í línu

Ég vil mæta þegar það er rólegt ….

Þá er gott að skoða dagatalið okkar og mæta þegar það er ekki námskeið eða hópur, oftast er frekar rólegt fyrri partinn um helgar og milli kl. 19 og 20 á virkum dögum. Annars er eiginlega ómögulegt að segja, fólk er óútreiknanlegt. Líklegast fara allir að mæta núna á þessum tímum…..

Hvaða fríðindi fylgja því að eiga árskort?

Hvað fylgir ekki væri léttara að svara, í fyrsta lagi fylgir faðmlag frá starfsmanni við kaup á árskorti til að bjóða þig velkomin í hópinn og svo geturu mætt allt árið að klifra þegar það er opið! Hvað meira er hægt að biðja um..

Er björgunarsveitarfólk almennt sterkir klifrarar?

Almennt, nei. Þó eru til undantekningar.

En ég vil fara klifra úti í klettunum…

Já við viljum það öll, útitími íslenskra klettaklifrara eru svona um það bil frá páskum þangað til að það er orðið mjög kalt.. Þá er hægt að fara á frábær klifursvæði bæði fyrir línu og grjótglímu, frekari upplýsingar er að finna á Klifur.is og þar er líka flott kort af svæðunum, eða þú getur leitað til næsta klifrara eða í afgreiðslu Klifurhússins.

Ef þú ert að fara til útlanda er líka um að gera að gúgla hvort að það séu ekki einhver klifursvæði eða klifurhús til að prufa.

Ég er byrjandi, hvað á ég að gera?

Þú getur skráð þig á námskeið sem eru haldin reglulega yfir vetur og sumar, eða þú getur einfaldlega bara mætt á opnunartíma eða keypt þér kort leigt skó og byrjað að klifra. Klifrara eru nefnilega einstaklega gott fólk með fallegt hjartalag og hika ekki við að aðstoða þig ef þú hefur einhverjar spurningar.
Svo er líka hægt að taka þátt á byrjendakvöldum sem haldin eru annan og fjórða þriðjudag hvers mánaðar kl 19.

Er ég of gamall/gömul fyrir 16 plús námskeiðið?

Það er enginn of gamall fyrir klifur. Meðalaldurinn er oftast í kringum 30, en langoftast eru einhverjir á aldrinum 16-50 ára 🙂

Er opið í hádeginu?

Já það er opið alla virka daga frá 11:30-13:30.

Ég á börn hvað á ég að gera?

Við bjóðum uppá námskeið fyrir börn frá 6 ára og aldri, annars eru sérstakir fjölskyldutímar um helgar og getur þá fjölskyldan komið að klifra á tilboðsverði. Við erum með barnavegg sem að ungarnir geta klifrað í og yngri en 8 ára greiða einungis fyrir leigu á skóm. En ekki er ætlast til þess að börn séu að klifra á virkum dögum sem eru ekki á námskeiði. Börn verða alltaf að vera í fylgd með fullorðnum og fara verður vel yfir húsreglurnar með þeim af öryggisástæðum.

Dænó, juggari, gaston, puttahola, rauðpunkt … um hvað eruði að tala???

Tungumál klifrara hefur lengi vafist fyrir hinum almenna borgara og muggum en eina leiðin til að læra um lifnaðarhætti klifrara er að fá sér kort í Klifurhúsinu og klifra með þeim, þessi samantekt hjá klifur.is gæti líka hjálpað / orðabók

Hvað heitir höfuðborgin í Mexíkó?

Mexíkóborg.

Svartar leiðir?

Léttustu leiðarnar í húsinu eru alltaf merktar með svörtu teipi, það er frábært að byrja á því að reyna að klára þær allar – oftast um 6 stk og halda svo áfram í litina en þá byrjaru að elta gráður sem eru merktar með bókstafnum V og svo tölu frá 0 og uppúr. Þær eru líka góðar upphitunarleiðir.

V2, V3, V4 …. Hvað eru gráður?

Erfileikastig leiða eru mæld með gráðum frá V0 og uppúr og gefa þær grófa mynd af erfileika leiðarinnar, en hafið það hugfast að gráður eru bara til viðmiðunar leiðir geta verið miserfiðar fyrir fólk eftir klifurstíl, stærð og vegna fleirri þátta. Gráður er líka alltaf aukaatriði, aðalatriðið er bara að klifra eitthvað skemmtilegt og finna sér verðugt markmið.