Upplýsingar fyrir byrjendur

Svo þú vilt koma að klifra? FRÁBÆRT! Hér er allt sem þú þarft að vita:

Getur hver sem er stundað klifur?

Ef þú hefur amk 3 útlimi sem virka þá getur þú stundað klifur. Það eru bæði þykkt, létt, þétt, bólgið, bjagað og hresst fólk sem stundar klifur. Það eru meira að segja til góðir klifrarar sem vantar á ýmsa útlimi.

Þarf maður að vera í bandi? (á klifurmáli: “línu”)

Nei. Lofthæðin í Klifurhúsinu er ekki það mikil að maður þurfi að vera í línu. Í klifurhúsinu er stunduð svokölluð “Grjótglíma”, sem er styttra form af klifri þar sem eingöngu er klifrað upp í 4m.

Hins vegar er línuveggur í Klifurhúsinu, en það þarf sérstakt próf til þess að klifra í honum.

Hvað þarf ég að hafa með mér?

Þú þarft í raun bara tvennt:

  • Föt sem þægilegt er fyrir þig að hreyfa þig í.
  • Hressa lund – Það má vera að það sé dálítil klisja að biðja fólk um að taka með sér góða skapið, en við erum reyndar með sér deild í Klifurhúsinu sem er í því að finna fýlupúka. Þeim er jafn óðum sturtað niður í klósettið.

Er klifur hættulegt?

Klifur er ekki hættulegra en aðrar íþróttir. Sérstaklega ekki í Klifurhúsinu. Auðvitað er hætta á meiðslum eins og í öllum öðrum íþróttum, en þar sem það er þykk og mjúk dýna undir öllum veggjum, þá er hugsanlegur skaði af því að detta ólíklegur.

Hafa ber þó í huga að klifrarar eru á eigin ábyrgð í Klifurhúsinu.

En ég er lofthrædd(ur)!

Það er mjög eðlilegt. Flestir klifrarar eru líka lofthræddir. Maður kemst smám saman yfir það með tímanum og það tekur nokkur skipti að venjast klifurhæðinni í Klifurhúsinu.

Hverjar eru reglurnar í klifri?

Það eru í raun engar reglur í klifri sem slíku. Þú finnur þér bara stað á einhverjum vegg þar sem þig langar að komast upp og reynir að príla upp.

Hinsvegar eru ákveðnar reglur í Klifurhúsinu sem öllum klifrurum ber að gæta. Þú finnur þær hér: Reglur Klifurhússins

“Leiðir”

Það er mjög gaman að fara bara og klifra einhvernveginn, en ef maður vill hafa smá þraut í þessu, þá getur maður klifrað eftir ákveðnum, fyrirfram tilbúnum leiðum, sem merktar eru með límböndum í ákveðnum litum.

Þá gengur það út á að klifra upp vegginn en þú mátt eingöngu grípa í þær festur sem eru með límbandi í samsvarandi lit. Td. í bláum lit. Liturinn á festunum skiptir engu máli, eingöngu liturinn á límbandinu.

Það gerir það örlítið erfiðra en líka mun skemmtilegra.

Byrja neðst og enda efst

Allar leiðir hafa byrjunar- og endafestur. Leið telst vera “klifruð” ef þú byrjar leiðina með því að halda með báðum höndum í byrjunarfestuna, klifra alla leið upp og halda síðan í amk 1-2 sekúndur í endafestuna. Ef þú nærð því – þá ertu búinn að klára leiðina. Sorry, þú færð engin stig, en þú færð samt klapp á bakið.

Leiðirnar eru mis erfiðar, sumar eru auðveldar og aðrar eru ómögulegar nema fyrir þá sem hafa stundað klifur lengi.

Það er engin regla á litum límbandsins, nema að leiðir með svörtu límbandi henta vel fyrir krakka og þar af leiðandi oftast einnig vel fyrir byrjendur.

Merkingar/skammstafanir á leiðum

Þegar þú mætir fyrst þá áttu óneitanlega eftir að taka eftir því að það eru allskyns torskildar skammstafanir við byrjunarfestur á öllum leiðum. Þær þýða eitthvað á þessa leið:

  • M.H. = Merktar hendur. Þessi merking þýðir að þú mátt einungis nota grip/svæði sem merkt eru með teipi, ef leiðin er merkt með MH má t.d. ekki taka í vegginn sjálfan.
  • A.F. = Allir fætur. Það þýðir að þú mátt stíga hvar sem er. Engar reglur. Frelsi frá manninum!
  • M.F. = Merktir fætur. Það má stíga á þær festur sem eru merktar í réttum lit.
  • S.F. = Skrúfaðar fætur. Ef þú skoðar vel þá sérðu að flestar festur eru festar á veginn með með frekar stórum bolta, en það eru hellingur af pinku litlum festum sem eru eingöngu skrúfaðar við vegginn. Þessi merking þýðir að þú mátt stíga á þær festur, þrátt fyrir að það sé ekki límband á þeim.
  • B.S. = Byrja sitjandi. Það þýðir að síðasti “útlimurinn” þinn sem á að fara af jörðinni (eða dýnunni) og á vegginn er rassinn á þér. Þ.e.a.s. þú átt að sitja á dýnunni, koma báðum höndum og báðum fótum fyrir á veggnum, áður en þú mátt lyfta rassinum af dýnunni.

Oftast eru leiðirnar síðan samsettar af þessum merkingum. Tökum dæmi: MH MF BS – Það þýðir að þú mátt eingöngu stíga á merkta fætur (þau grip sem eru með límbandi) og verður að byrja leiðina sitjandi.

Skórnir

Klifurskór eru alveg sér tegund af skóm.Þeir eru oftast úr sérstöku gúmmíi og eru hannaðir til að gera manni auðvelt fyrir að haldast á veggnum. Maður á að finna sér klifurskó sem eru þröngir. Mjög þröngir. Þú átt í raun að gráta einu tári í hvert skipti sem þú ferð í klifurskó, annars eru þeir of stórir á þig.

Ekki er hægt að klifra í strigaskóm – það er reyndar hægt, en það er margfalt margfalt erfiðara.

Kalk

Í klifri er mjög mikilvægt að vera með gott viðnám (öfugt við “sleipt”) á plastinu sem maður heldur í. En þegar maður er að reyna mikið á sig, þá á maður það til að svitna. Og þegar maður svitnar, þá verða lófarnir blautir og gripið þar af leiðandi sleipara.

Kalkið er notað til að halda puttunum þurrum og þar af leiðandi til að hafa betra grip.

 

 

 

Þessar leiðbeiningar eru enn í vinnslu. Ætlunin er að myndskreyta betur osfrv. Ef þú ert með hugmyndir eða athugasemdir, láttu okkur endilega vita í gegnum tölvupóst eða Facebook eða eitthvað.