Upplýsingar fyrir byrjendur

Svo þú vilt koma að klifra? FRÁBÆRT!

Hér er allt sem þú þarft að vita:

 

Getur hver sem er stundað klifur?

Ef þú hefur a.m.k. þrjá útlimi sem virka getur þú stundað klifur. Fólk af öllum aldri, stærðum og gerðum klifrar og nýir meðlimir eru alltaf velkomnir í Klifurhúsið.

Þarf maður að klifra í reipi/línu?

Nei. Lofthæðin í Klifurhúsinu er ekki það mikil að maður þurfi að vera í línu. Í Klifurhúsinu er stunduð svokölluð „grjótglíma” en það er ákveðið form af klifri þar sem eingöngu er klifrað upp í 4m með dýnu fyrir neðan.

En til gaman má geta þá er svokallaður línuveggur í Klifurhúsinu en til að klifra í honum þarf klifrarinn að koma með sitt eigið klifurbelti. Í húsinu er sjálfstryggingartól sem þýðir að klifrarinn getur fest það við beltið sitt og klifrað upp línuvegginn eins og honum hentar.

Hvað þarf ég að hafa með mér?

Þú þarft í raun bara tvennt:

  • Föt sem þægilegt er fyrir þig að hreyfa þig í.
  • Klifurskó en þá er bæði hægt að leiga og kaupa í Klifurhúsinu. Leiga á skóm er 500 kr skiptið en með aðgangi gera það 1800 kr.

Er klifur hættulegt?

Klifur er ekki hættulegra en aðrar íþróttir. Sérstaklega ekki í Klifurhúsinu. Auðvitað er hætta á meiðslum eins og í öllum öðrum íþróttum en þar sem það er þykk og mjúk dýna undir öllum veggjum er hugsanlegur skaði af því að detta ólíklegur.

Hafa ber þó í huga að klifrarar eru á eigin ábyrgð í Klifurhúsinu.

Öryggisatriði

Gott er að hafa í huga að vera meðvitaður um þá sem eru að klifra og passa sig að vera ekki á dýnunni fyrir neðan klifrarann. Við innganginn á klifursalnum eru reglurnar um hvernig skal hegða sér í klifursalnum og einnig má finna þær reglur hér á heimasíðunni.

En ég er lofthrædd/ur!

Það er mjög eðlilegt. Flestir klifrarar eru líka lofthræddir. Maður kemst smám saman yfir það með tímanum og það tekur nokkur skipti að venjast klifurhæðinni í Klifurhúsinu.

Hverjar eru reglurnar í klifri?

Það eru ákveðnar reglur í Klifurhúsinu sem öllum klifrurum ber að gæta. Þú finnur þær hér: Reglur Klifurhússins

Annars eru í raun engar reglur í klifri sem slíku. Þú finnur þér bara stað á einhverjum vegg þar sem þig langar að komast upp og reynir að príla upp.

“Leiðir”

Það er mjög gaman að fara bara og klifra einhvern veginn en ef maður vill hafa smá þraut í þessu, þá getur maður klifrað eftir ákveðnum, fyrir fram tilbúnum leiðum, sem merktar eru með límböndum, merkimiða og gripin eru í ákveðnum lit.

Þá gengur það út á að klifra upp vegginn en klifrarinn grípur eingöngu í grip sem eru í samsvarandi lit. Þá er byrjunar- og endagripið merkt með lituðu teipi en aðeins má grípa í og stíga á grip sem eru í samsvarandi lit og byrjunar- og endagripin. Leiðin telst kláruð ef klifrarinn fer hana frá byrjun án þess að detta og nær að halda í lokagripið í þrjár sekúndur.

Þetta gerir klifrið örlítið erfiðra en líka mun skemmtilegra.

Leiðirnar eru mis erfiðar, sumar eru auðveldar og aðrar eru ómögulegar nema fyrir þá sem hafa stundað klifur lengi. Auðveldustu leiðirnar eru merktar með spjaldi með gulum hjá byrjunargripinu. Rauðu hringarnir eru síðan erfiðari en þeir gulu og svo koll af kolli eftir litaröðinni.

 

Skórnir

Klifurskór eru alveg sér tegund af skóm. Þeir eru oftast úr sérstöku gúmmíi og eru hannaðir til að gera manni auðvelt fyrir að haldast á veggnum. Maður á að finna sér klifurskó sem eru þröngir en því þrengri sem skórnir eru því meiri stjórn hefur klifrarinn á því hvar hann stígur og hvernig. Sagt er að bestu klifrararnir séu alltaf að horfa niður en það þýðir að þeir séu alltaf að hugsa um hvert sé best að stíga.

Ekki er hægt að klifra í strigaskóm – það er reyndar hægt, en það er margfalt margfalt erfiðara.

Kalk

Í klifri er mjög mikilvægt að vera með gott viðnám (öfugt við “sleipt”) á plastinu sem maður heldur í. En þegar maður er að reyna mikið á sig, þá á maður það til að svitna. Og þegar maður svitnar, þá verða lófarnir blautir og gripið þar af leiðandi sleipara.

Kalkið er notað til að halda puttunum þurrum og þar af leiðandi til að hafa betra grip.

 

 

 

Þessar leiðbeiningar eru enn í vinnslu. Ef þú ert með hugmyndir eða athugasemdir, láttu okkur endilega vita í gegnum tölvupóst: klifurhusid@klifurhusid.is