fbpx
Húsnæði Klifurhússins thurasoley 13 mars, 2024

Húsnæðin

Korthafar í Klifurhúsinu hafa aðgang að eftirfarandi húsnæðum á vegum Klifurfélags Reykjavíkur
Klifurhúsið í Ármúla 23

Í klifursalnum í Á23 eru circa 15 klifurveggir með mismunandi hallastigum og leiðirnar þar eru allt frá fyrir byrjendur í klifri til lengra komna.

Í húsinu er lyftinga- og teygjuaðstaða ásamt svæði til að stunda styrktaræfingar fyrir klifur og Moon veggur félagsins er staðsettur þar. 

Í enda klifursalarins er síðan 6,90 m hár línuklifurveggur með tveimur sjálfvirkjum tryggingartækjum (e. autobelay). Við mælum með að klifrarar nýti þessa aðstöðu til að æfa sig fyrir línuklifurpróf KÍ (ath. vegna öryggisástæðna er ekki hægt að leigja línuklifurbúnað í Klifurhúsinu og þurfa klifrarar því að koma með hann sjálfir). 

Í Á23 má einnig finna afgreiðslu Klifurhússins og Klifurbúðina, ásamt búningsklefum félagsins og sturtuaðstöðu. 

Opnunartíma Klifurhússins í Á23 má finna neðst á heimasíðunni en við viljum benda á að hann skiptist í sumar- og vetraropnunartíma. Skiptingin á sér iðulega stað þegar grunnskólar í Reykjavík fara í sumarfrí og hefjast að nýju, þar sem á sumrin stendur klifurfélagið fyrir sumarnámskeiðum fyrir börn á aldrinum 6 – 10 ára. 

Fjölskyldu- og æfingasalirnir í Ármúla 21

Í Ármúla 21 við hlið Klifurhússins í Ármúla 23 er fjölskyldu- og æfingasalur félagsins. Í fjölskyldusalnum eru klifurveggir sérstaklega ætlaðir börnum og hægt er að leigja salinn fyrir viðburði. Á efri hæð húsnæðisins er síðan lítill veitingasalur sem er hægt að nýta fyrir bæði afmæli og fundi.

Klifurveggirnir í æfingasalnum í Á21 eru nýttir fyrir leiðir sem eru helst til plássfrekar fyrir salinn í Á23 og eru á yfir miðlungs háu erfiðleikastigi. Þar má einnig finna tvo “kaos” veggi, (klifurveggir með ótal gripum þar sem klifrarar geta skapað sínar eigin leiðir eftir hentugleika). Markmið annars kaos veggjarins er að reyna meira á puttastyrk og líkamlega spennu en markmið hins veggjarins er að reyna meira á axlir og klemmugrip (e. slopers). 

Í kjallaranum í Á21 er lyftingar- og teygjuaðstaða ásamt tveimur teygjusölum sem félagið og iðkendur geta nýtt sér og hægt verður að nálgast stundatöflu fyrir þá á heimasíðu félagsins. 

Opnunartími Á21 er misjafn eftir dögum og svæðum:

Fjölskyldusalurinn er ýmist frátekinn fyrir æfingar, afmæli og almennan opnunartíma. Stundataflan fyrir hann má finna hér: https://klifurhusid.is/aefingar/stundatoflur/ 

Æfingasalurinn í Á21 er að mestu leyti opin á sama tíma og Klifurhúsið í Á23 fyrir korthafa félagsins en 4 sinnum í viku er hann  lokaður í 2-3 klst. í senn vegna æfinga afrekshóps Klifurhússins og landsliðsæfinga KÍ.

Salurinn er frátekinn fyrir æfingar afrekshóps Klifurhússins og landsliðs KÍ þriðjudaga og fimmtudaga kl. 18-20 og um helgar kl. 12-15. 

Miðgarður

Í fjölnota íþróttahúsinu Miðgarði í Garðabæ er 13 m hár línuklifurveggur sem Klifurhúsið sér um að reka fyrir hönd Miðgarðs. Aðgangur að veggnum fæst í gegnum Klifurhúsið en allir þeir sem eiga kort í Klifurhúsinu eru með aðgang að honum.

Til að klifra í Miðgarði þarf klifrarinn að mæta með sinn eigin búnað og vera með prófskírteini frá Klifursambandi Íslands (KÍ). Nánari upplýsingar um prófskírteinið má finna hér: Línu og leiðsluklifurpróf

Opnunartími Miðgarðs: Íþróttamannvirki Garðabæjar

FB hópur fyrir klifur í Miðgarði: Klifur í Miðgarði

Viðburðaskjal fyrir Miðgarð (hvenær það eru námskeið og æfingar): Miðgarður – Dagskrá