KLIFURFÉLAG REYKJAVÍKUR
Siðareglur, viðbragðsáætlun og jafnréttisstefna
Siðareglur
Siðareglur þessar gilda fyrir alla félagsmenn Klifurfélags Reykjavíkur sem til lengri eða skemmri tíma starfa fyrir félagið. Siðareglurnar gilda fyrir alla starfsemi í nafni Klifurfélags Reykjavíkur jafnt í húsnæði félagsins sem utan þess.
Stjórnendur Klifurfélags Reykjavíkur fylgja verklagsreglum ÍBR varðandi ráðningu starfsmanna, þjálfara og annarra sem koma að starfi félagsins og kynna siðareglurnar fyrir þeim og iðkendum.
- Hafðu hagsmuni félagsins að leiðarljósi í orðum og athöfnum og vertu félaginu til sóma í öllu starfi á þess vegum.
- Berðu virðingu fyrir sjálfum þér og öðrum, búningi félagsins, umhverfi og mannvirkjum. Niðurlægjandi framkoma svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, illt umtal og ósæmilegar vígsluathafnir er ekki liðin innan félagsins.
- Stuðlaðu að jöfnum tækifærum félagsmanna og mismunaðu ekki vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana eða annarrar stöðu.
- Gættu trúnaðar gagnvart einstaklingum um atriði sem þú verður áskynja í starfi eða við iðkun hjá félaginu. Gættu þess að persónuupplýsingar séu einungis notaðar í málefnalegum tilgangi og að aðgengi að slíkum upplýsingum takmarkist af því.
- Misnotaðu ekki aðstöðu þína í þágu einkahagsmuna. Veittu engum sérstaka fyrirgreiðslu á grundvelli persónulegra tengsla.
Viðbragðsáætlun við brotum á siðareglum
Aðilar sem telja að þessar siðareglur hafi verið brotnar skulu vísa málinu til framkvæmdastjóra Klifurfélags Reykjavíkur eða stjórnarmeðlima, sem tekur málið upp á stjórnarfundi. Hægt er að hafa samband við framkvæmdarstjóra Klifurfélags Reykjavíkur í síma, eða með því að senda póst á klifurhusid@klifurhusid.is.
Stjórn Klifurfélags Reykjavíkur metur eðli málsins og kemur því í viðeigandi farveg. Ofbeldisbrot gegn börnum er komið til barnaverndar eða lögreglu eftir því sem við á, og eftirvinna máls unnin í samvinnu við viðkomandi stofnun. Mál sem snúa að kynferðisbroti eða öðru líkamlegu ofbeldi skal farið með til lögreglu.
Stjórn Klifurfélags Reykjavíkur tekur ákvörðun um hvert mál fyrir sig eftir upptöku á fundi, þá getur stjórn látið málið falla niður, veitt áminningu, vísað aðila tímabundið úr félaginu, vísað aðila varanlega úr félaginu, vísað málinu til lögreglu eða barnaverndar. Þá skal einnig metið hvort þurfi utanaðkomandi aðstoð (til dæmis frá ÍBR) við úrvinnslu mála sem snúa eða einelti eða kynferðislegri áreitni.
Þeir sem starfa hjá Klifurfélagi Reykjavíkur þurfa að kynna sér Siðareglur Klifurfélags Reykjavíkur og viðbragðsáætlun við brotum á siðareglum, og staðfesta það með undirskrift. Einnig verða Siðareglurnar kynntar fyrir félagsmönnum og aðgengilegar á heimasíðu.
Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun Klifurfélags Reykjavíkur
Inngangur
Einstaklingum líður betur í umhverfi þar sem jafnrétti ríkir. Þar sem kynjamisrétti fær að skjóta rótum eru oft ríkjandi aðrir fordómar sem t.d. tengjast uppruna eða aldri. Hugmyndir um það hvað sé við hæfi að stelpur geri annars vegar og strákar hins vegar eru hamlandi. Þar sem raunverulegt jafnrétti ríkir fá allir einstaklingar að njóta sín og blómstra.
Íþróttafélagið stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Íþróttafélagið leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í öllu starfi. Niðurlægjandi framkoma svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, illt umtal og ósæmilegar vígsluathafnir er ekki liðin innan félagsins.
Í 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 kemur fram að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi.
Jafnréttisstefnan nær til iðkenda, þjálfara, stjórna og starfsfólks. Stefnan gildir í allri starfsemi félagsins. Stefnan er endurskoðuð og lagfærð er þurfa þykir í kjölfar skila á greinargerð um framkvæmd hennar. ÍBR kallar eftir jafnréttisstefnu og framkvæmd hennar frá íþróttafélaginu jafnhliða skilum ársreikninga. ÍBR mun veita ráðgjöf og stuðning varðandi erfið mál m.a. einelti og kynferðislega áreitni.
Tekið af heimasíðu ÍBR, jafnréttismál – Jafnréttisstefna
Jafnréttisstefna
Íþróttir skipa stóran sess í uppvexti margra barna. Íþróttir stuðla að sterkri sjálfsmynd einstaklingsins, heilbrigðum lífsstíl og almennri vellíðan. Í íþróttum setja iðkendur sér markmið og fylgja þeim eftir með góðri skipulagningu og leiðsögn. Með íþróttaþjálfun byggjum við upp öfluga einstaklinga sem fara af stað út í lífið með gott veganesti sem stuðlar að hreysti og heilbrigði.
Tímar
Klifurfélag Reykjavíkur úthlutar jafn mörgum tímum til æfinga til beggja kynja sem stunda æfingar innan sömu greinar og eru á sama aldri.
Félagið úthlutar tíma í samræmi við aldur. Þess er gætt að bæði kyn njóti þess að vera á „jafngóðum“ tíma dagsins.
Mæling
Framkvæmdarstjóri gerir úttekt á tímatöflum í upphafi hverrar annar.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Aðstaða
Bæði kynin njóta sömu eða sambærilegrar aðstöðu og aðbúnaðar við æfingar.
Mæling
Framkvæmdarstjóri félagsins gerir úttekt á aðstöðu og aðbúnaði í upphafi hverrar annar.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Fjármagn
Samræmi sé í fjárveitingum innan félagsins til íþróttagreina eftir kynjum. Málefnaleg rök skulu vera fyrir frávikum og skulu þau heyra til undantekninga.
Mæling
Framkvæmdastjóri ber saman fjárveitingar til greina og niður á kyn. Upplýsingar eru teknar úr bókhaldi.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að samanburðurinn sé framkvæmdur.
Umfjöllun
Þess er gætt að umfjöllun um bæði kynin og íþróttagreinar sé sem jöfnust á vefsíðum félagsins og í öllu efni sem félagið lætur frá sér fara t.d. útgáfu og fréttatilkynningum. Á þetta bæði við um texta og myndefni.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagsins gerir úttekt á öllu útgefnu efni út frá kyni, íþróttagreinum og aldri. Umfjöllun á vefsíðum skal greind með sama hætti þrisvar sinnum á ári og nær úttektin yfir eina viku í hvert sinn.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Fyrirmyndir
Fyrirmyndir eru kynntar á ígrundaðan hátt og þess gætt að þær séu af báðum kynjum og endurspegli þær áherslur sem eru hjá félaginu.
Mæling
Framkvæmdastjóri gerir úttekt einu sinni á ári. Hann athugar hverjar áherslur félagsins eru og hvernig fyrirmyndirnar hafi verið kynntar.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Vinna gegn staðalímyndum
Félagið vinnur markvisst gegn staðalímyndum með því að leitast við að jafna kynjahlutföll meðal iðkenda hverrar íþróttagreinar fyrir sig. Á þetta við jafnt í starfi sem og allri umfjöllun um starfið.
Mæling
Framkvæmdastjór gerir stöðumat og vinnur í kjölfarið tillögur að úrbótum ef þurfa þykir.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að stöðumatið sé framkvæmt.
Verðlaun
Verðlaun til beggja kynja og innan allra greina eru sambærileg. Félagið upplýsir kostunaraðila og aðra samstarfsaðila um þá stefnu félagsins að jafnræðis skuli gætt milli kynja og greina í verðlaunum.
Mæling
Framkvæmdastjóri félagins gerir úttekt einu sinni á ári á formlegum verðlaunaafhendingum félagsins.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Laun eða hlunnindi iðkenda
Kynin njóti sömu launa og/eða hlunninda fyrir sömu eða sambærileg störf hjá félaginu.
Mæling
Framkvæmdastjóri gerir jafnréttisúttekt á launum/hlunnindum úr bókhaldi einu sinni á ári.
Ábyrgð
Stjórni félagsins ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.
Afrekssjóðir
Við úthlutun úr afrekssjóðum eru upphæðir/úthlutun eftir kynjum og aldri sem jöfnust hjá félaginu.
Mæling
Framkvæmdastjóri gerir jafnréttisúttekt á upphæðum úr bókhaldi einu sinni á ári.
Ábyrgð
Stjórn félagsins ber ábyrgð á að úttektin sé framkvæmd.