fbpx
Mannauðsstefna thurasoley 21 mars, 2024

Mannauðsstefna

Mannauðs-
stefna

Klifurfélags Reykjavíkur

Tilgangur og markið

Í rekstri íþróttafélags er mannauðurinn lykilinn að velgengni þess. Forsendan fyrir faglegu starfi félagsins er uppbyggilegt vinnuumhverfi og jákvæð vinnustaðarmenning þar sem áhersla er lögð á að traust ríki í starfsmannahópnum og að teymisvinna sé hávegum höfð. Það er markmið Klifurfélags Reykjavíkur að fá til sín og halda í hæft starfsfólk sem stuðlar að uppbyggingu klifuríþróttarinnar í Reykjavík og á Íslandi.

Eitt af því sem einkennir starfsmenn íþróttafélaga er að margir af þeim eru ungir og oft í sínu fyrsta starfi. Stefna félagsins er að þjálfa þá starfsmenn til að vera sjálfstæðir, sýna frumkvæði og öryggi í starfi og halda þannig þétt utan um mannauðinn sinn.

Lykilatriðin í mannauðsstefnu félagsins eru traust, samvinna, jákvæðni, frumkvæði og fjölbreytileiki.

 
Starfsumhverfið

Klifurfélagið tryggir öryggi starfsmanna sinna með því að framfylgja stöðugu eftirliti með aðstöðu og búnaði félagsins. Aðstaðan á ávallt að vera eins góð og á verður kosið í heilsusamlegu umhverfi.

Áhersla er lögð á að starfsfólk beri traust til síns næsta stjórnenda til að láta vita ef eitthvað ber út af og viti að brugðist verði strax við. Í samskiptum milli starfsmanna og stjórnenda er alltaf gætt fyllstu virðingu og trúnaði fylgt hvort sem um óformleg eða formleg samskipti er að ræða.

 
Jafnréttisstefna

Þegar ráðið er í störf fyrir félagið skal gæta jafnréttis og starfsfólki er greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt eða sambærileg störf, óháð kyni, kynhneigð, kynþáttar og trúar. Jafnréttisstefnu Klifurfélagsins má nálgast hér: Siðareglur, viðbragðsáætlun og jafnréttisstefna.

 
Þjálfun og endurmenntun

Félagið hvetur alla sína starfsmenn til að sækja sér þjálfun og endurmenntun með það markmið að styðja við og styrkja hæfni þeirra í starfi sem stuðlar að vexti og uppbyggingu  Klifurfélags Reykjavíkur. Starfsmenn skulu hafa jöfn tækifæri og aðgang að endurmenntun og þjálfun og félagið einsetur sér að hvetja til starfsþróunar með þessum hætti. Þjálfarar eru hvattir til að sækja þjálfaranámskeið ÍSÍ á kostnað félagsins og stjórnendur eru hvattir til að sækja námskeið og viðburði sem stuðla að aukinni hæfni á þeirra starfssviðum.

 
Móttaka nýrra starfsmanna

Ávallt skal tekið á móti nýjum starfsmönnum með markvissum hætti og skulu þau á fyrsta degi fá allar upplýsingar um starf sitt og skyldur. Áhersla er lögð á að nýir starfsmenn upplifi sig sem hluta af hópnum og að hvetja þau til þátttöku í klifursamfélaginu með þeim hætti sem þau kjósa.

 
Ofbeldi og einelti

Klifurfélagið fylgir stefnum og viðbragðsáætlum ÍSÍ og ÍBR þegar við kemur ofbeldi, kynbundnu ofbeldi, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreiti og einelti. Viðbragðsáætlanir eru ávallt í samræmi við gildandi reglugerðir og eru sýnilegar og aðgengilegar starfsfólki. Markmið félagsins er að starfsfólk beri nægilegt traust til stjórnenda þess til að leita til þeirra til að fá aðstoð.

Siðareglur um ofbeldi: https://klifurhusid.is/wp-content/uploads/2024/03/Sidareglur-gagnvart-ofbeldi.pdf