Bikarmót

Reglur fyrir Bikarmótið

Bikarmót er haldið á vorönn að Íslandsmeistaramótaröðinni lokinni. Keppt er í opna flokkinum (16 ára+) og 13-15 ára flokkinum. Sigurvegari í hverjum flokki hreppir bikarmeistaratitil í grjótglímu.  Tilgangurinn með mótinu er að skapa vettvang fyrir fremstu klifrara landsins þar sem þeir geta spreytt sig á móti sem er byggt upp á sama hátt og Norðurlanda- og heimsmeistaramót í grjótglímu.

Settar eru upp fjórar leiðir fyrir hvern flokk. Keppendur sjá ekki aðra klifra leiðina heldur eru í einangrun þangað til þeir eru kallaðir fram í klifursalinn. Þar tekur dómari á móti þeim sem telur þær tilraunir sem það tekur keppanda að komast upp í bónusgripið og klára leiðina. Klifrarinn fær 4 mínútur til þess að leysa leiðina og eftir það fer hann aftur í einangrun.

Keppnisréttur

Keppendur í opna flokknum (16 ára+) og 13-15 ára flokkinum geta fengið keppnisrétt á Bikarmótinu. Þeir sex keppendur sem fá flest mótaraðarstig í sínum þremur bestu mótum öðlast keppnisrétt á mótinu. Ef keppandi keppir í færri en þremur mótum hefur hann samt sem áður möguleika á að komast á bikarmótið en þá telja þau mót sem viðkomandi mætti ekki á sem núll stig. Komi það fyrir að tveir eða fleiri deila 6. sæti þegar mótaraðarstig þriggja bestu mótanna eru talin er skorið úr um hver þeirra kemst inn á Bikarmótið með því að telja samanlögð mótastig þriggja bestu móta í Íslandsmeistaramótaröðinni. Ef enn er jafnt þá öðlast báðir/allir keppendurnir sem deildu sætinu keppnisrétt.

Keppendur skulu tilkynna með þriggja vikna fyrirvara um þátttöku þeirra á Bikarmótinu. Ef keppandi ákveður að keppa ekki á mótinu færist keppnisrétturinn til þess næsta í röðinni þangað til búið er að fylla flokkana eða að enginn klifari með mótaraðarstig er eftir á lista. Mótsstjóri er ábyrgur fyrir að fylgja þessu eftir.

Stigagjöf á Bikarmótum

Allar leiðir gefa jafmörg stig, óháð erfiðleika. Sá klifrari sem nær að klára flestar leiðir stendur uppi sem sigurvegari. Klári tveir eða fleiri klifrarar jafn margar leiðir þá vinnur sá sem notaði færri tilraunir (summutala allra leiðana) til að klifra leiðirnar. Ef tveir eða fleiri klifarar klára jafn margar leiðir í jafn mörgum tilraunum sker fjöldi bónusstiga úr um það í hvaða sæti þeir raðast. Séu þeir með jafn mörg bónusstig sker fjöldi þeirra tilrauna sem tók að ná bónusstigunum úr því í hvaða sæti þeir raðast. Ef það er enn jafnt fara keppendurnir í bráðabanaleið.

Dómarar skrifa hversu margar tilraunir klifrarar þurfa til þess að ná bónusfestu og hversu margar tilraunir klifrarar þurfa til að klára leiðir.Í lokin er samanlagður fjöldi tilrauna til að ná bónusfestum og samanlagður fjöldi tilrauna við að klára leiðirnar taldar saman.

Festurnar í bráðabanaleiðinni eru númeraðar og sá sem kemst lengra í leiðinni vinnur titilinn. Upplýsingarnar um númer festnanna liggur fyrir þegar keppendur skoða leiðina. Það þarf að halda af öryggi í festu til þess að fá fullt stiga fyrir hana en ef klifari nær að snerta festu en ekki halda fær hann hálft stig (s.s. ef klifrari nær að slá í festu númer 10 þá endar hann með 9,5 stig). Aðeins er keppt í bráðabana um sigursæti.

Sérstakar reglur

Mótaraðarreglurnar gilda almennt um Bikarmótið auk nokkurra til viðbótar sem eru tíunaðar hér.

 1. Klifursalurinn verður lokaður þangað til 10 mínútur eru í að mótið hefjist. Þegar salurinn er opnaður þurfa allir keppendur að vera mættir í einangrun.

 2. Í upphafi mótsins er svokallaður ‘skoðunartími’ fyrir keppendur. Þá hafa þeir tíma til þess að skoða þær leiðir sem þeir munu koma til með að klifra. Þetta tímabil stendur í 1 mínútu fyrir hverja leið. Á meðan á þessu stendur mega keppendur koma við byrjunarfestu klifurleiðar, og ekkert annað.

 3. Keppendur koma fram í öfugri röð miðað við mótaraðastig, þ.e. keppandi í 6. sæti inn á bikarmótið klifrar fyrstur.

 4. Klifrarar hafa 4 mínútur til þess að leysa hverja klifurleið. Þegar keppandinn gengur að leiðinni má hann ekki horfa á vegginn. Þegar hann kemur að veggnum snýr hann baki í þann vegg sem leiðin er staðsett á og dómari lætur vita þegar tíminn er byrjaður að telja. Þá fyrst má keppandinn snúa sér við og byrja að reyna við leiðina. Eftir þessar 4 mínútur fer klifrari aftur í einangrun þar til næsta leið er klifruð. Ef klifrari er að klifra þegar tíminn rennur út má hann klára þá tilraun.

 5. Ef keppandi klifrar leið áður en tíminn er runninn út, bíður hann með að fara aftur inn í einangrun þar til tíminn rennur út.
 6. Keppendur á Bikarmóti fá þátttökublað sem þeir skrifa nafnið sitt á. Þeir láta svo dómara fá blaðið þegar kemur að þeim að klifra leið.

Um einangrun

 1. Keppendur skulu vera mættir í einangrun minnst 10 mínútum áður en mótið hefst.

 2. Sérstakur inngangur verður inn í einangrunina við stóru bílskúrshurðina.

 3. Mótsstjóri úrskurðar um það hvort keppandi sem mætir seint fái að halda þátttökurétti sínum.

 4. Keppendum er óheimilt að yfirgefa einangrunina þegar minna en 10 mínútur eru í að mótið hefjist.

 5. Í einangruninni hafa keppendur svæði til að klifra og hita upp á.

 6. Þar mun einnig hanga listi sem segir til um í hvaða röð keppendur koma fram.

 7. Óviðkomandi er bannaður aðgangur inn á einangrunarsvæðið.