fbpx
Nýárspistill formanns 2020 Klifurhusid 8 janúar, 2020

Nýárspistill formanns 2020

Allt sem fer upp kemur niður aftur

Við klifrarar þekkjum vel það lögmál að allt sem fer upp kemur niður aftur, og nú þegar púðrið af rakettunum sem við skutum upp til að fagna lokum 2019 og upphafi nýs árs, er allt að setjast, er vert að rýna yfir farinn veg og huga að komandi tímum. Húsnæðismál báru hæst á góma á yfirstandandi ári og mikil vinna hefur verið lögð í að leggja grunn að þarfagreiningu og ýta úr vör þessu gríðarmikilvæga verkefni. Núverandi leigusamningur er til rúmlega 3 ára og því mikilvægt að hafa nokkra möguleika í stöðunni á borðinu í lok ársins. Getum við framlengt núverandi samning, og þá á hvaða kjörum, eða er víst að við verðum húsnæðislaus í lok árs 2023? Mikilvægt er að útrýma allri óvissu er varða aðstöðumál sem fyrst og er sú vinna í fullum gangi. Verið er að kanna með lóðaúthlutanir með það fyrir augum að byggja framtíðarlausn fyrir klifrara, eða mögulegan flutning í stærri aðstöðu þar sem núverandi staður er löngu sprunginn. Viljum við byggja sjálf, og getum við það með aðstoð frá ríki og borg, eða þurfum við að leita til einkaframtaksins með fasta leigusamning til langs tíma í huga. Vinna er í gangi með Arkþing arkitektastofu að mismunandi lausnum.
Mikilvægt er að halda áfram öflugri uppbyggingu klifurs á Íslandi og þjónusta almenning jafnhliða því að bjóða upp á öflugt ungmenna og afreksstarf. Vöxtur og almennur áhugi á íþróttinni hefur vaxið jafnt og þétt allt frá stofnun Klifurfélags Reykjavíkur, og fyrirrennurum þess Vektor. Tíðinda er að vænta af málefnum sérsambands, eða landssamtaka klifurs, þar sem ÍSÍ samþykkti á nýliðnu ári að við gætum formlega sótt um sem sérsamband. Vinna í því að útbúa lög sambandsins og setja saman tillögur að skipuriti er í gangi, og er þá vert að spyrja sig að því hvaða áhrif mun það hafa á Klifurfélag Reykjavíkur að vera hluti af sérsambandi og hvernig viljum við hafa áhrif þar. Einnig hefur verið markvisst unnið í þjálfaramálum og réttindum ásamt keppnisfyrirkomulagi og reglum þar að lútandi. Mikilsvert starf sem oftast nær fer lítið fyrir í almennri umræðu. Öll þessi vinna kallar á breytingar á núverandi skipulagi og stjórnun uppbyggingu klifurs hér á landi þegar hún er öll gengin í garð. Því er mikilvægt að við vöndum til verka og undirbúum okkur undir komandi breytingar og tökum þeim fagnandi. Rekstur félagsins er góður og var sú ákvörðun tekin að hækka gjaldskrá til að standa straum að bættri aðstöðu og fjölbreytni í leiðum. Lokið var við að mála alla veggi í lok árs og ættu allir að geta glaðst yfir hvað aðstaðan okkar er hrein og fín.
Framtíð klifurs hér á landi er í höndum okkar, hins almenna iðkanda, og því er óskað eftir framlagi, umræðum og skoðunum um öll þau málefni er varða okkur öll. Hvort heldur sem það er varðandi aðgengi að klifursvæðum, boltun nýrra leiða og endurboltun eða gerð nýrra leiðarvísa eða endurbætur og prentun á nýju upplagi. Hvort áherslan á að vera á hinn almenna iðkanda eða meiri á þjálfun með áherslu á keppni innanlands sem utan og afreksstarf? Viljum við bæta aðstöðu til línuklifurs eða sérhæfa okkur í grjótglímu? Hvað með BÍS og sprunguklifuraðstöðu? Allt eru þetta spurningar sem við þurfum að spyrja okkur að og mynda okkur skoðun á til að leggja sterkari grunn að uppbyggingu klifurs hér á landi.
Í upphafi nýs árs setjum við okkur gjarnan markmið og leitumst við að bæta okkur. Ég hef áhuga á því að fá umboð til að leiða áframhaldandi uppbyggingarstarf sem fram undan er, fjórða fasann eins og ég kýs að nefna það, og hygg því á að bjóða mig fram til áframhaldandi formennsku í vor. Seint vil ég segja öðrum hvernig þeim beri að haga sínu lífi en það er von mín að geta sameinað ólíkar skoðanir og væntingar með þarfir ólíkra hópa að leiðarljósi.
Ég óska ykkur öllum farsældar, gæfu og gengis á komandi klifurári. Gleðilegt nýtt ár.
 ]]>

Scroll to Top