Lítið vissum við í upphafi árs um það hvað árið bæri í skauti sér. Eins og margir var ég spenntur fyrir nýju ári, áskorunum og
tækifærum.
Lífið í heimsfaraldri er ekki eins og við eigum að venjast og ekki eins og við viljum haga lífi okkar. Það er kúnst að setja takmarkanir á frelsi fólks, og það hefur vissulega reynst erfitt og íþyngjandi að takmarka þjónustu okkar fyrir klifrara, en á hinn bóginn er nauðsynlegt að sýna samstöðu og ábyrgð gagnvart þeirri óvissu sem heimsfaraldrinum hefur fylgt. Það er stefna stjórnar Klifurfélagsins að klifrarar fái tækifæri til að æfa í öruggu umhverfi til að efla líkamlegan sem og sálrænan þroska og því er sérstaklega ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir lokanir á árinu og takmarkaða æfingaaðstöðu að þá hefur iðkendafjöldi aukist töluvert á nýliðnu ári. Skipulagðar æfingar barna og unglinga sem og afrekshópa hefur tekið stakkaskiptum undanfarið ár ásamt síauknum vinsældum á sumarnámskeiðum sem er sérstaklega ánægjulegt. Hvarvetna hef ég orðið þess áskynja að þjónustan sem í boði er sé metin mikils og skilningur sýndur á aðstæðum og aðbúnaði. Leigusamningur Klifurhússins rennur út á vormánuðum 2023 og er mikilvægt að útrýma allri óvissu varðandi húsnæðismál félagsins. Mörg jákvæð skref hafa verið tekin á síðasta ári varðandi framtíðaraðstöðu félagsins og er þess vænst að niðurstöður þeirrar vinnu verði hægt að kynna á komandi mánuðum. Það er markmið stjórnar að styðja við áframhaldandi uppbyggingu klifurs á Íslandi og styrkja og tryggja húsnæðiskost Klifurhússins til framtíðar nú á 20 ára afmæli félagsins, Klifurfélag Reykjavíkur var stofnað 13. febrúar 2002. Þess verður að sjálfsögðu minnst með veglegum hætti eftir því sem aðstæður leyfa, og er nú þegar búið að skipuleggja nokkra atburði því tengdu sem verður gaman að kynna á næstu vikum og mánuðum.
Á komandi ári verður áhersla lögð á að stórbæta þjónustu félagsins og er liður í því uppfærsla á stafrænum kerfum okkar, hvort heldur sem litið er á kassa- og skráningarkerfi eða innleiðingu á Sportabler fyrir æfingar ásamt því að við setjum nú í loftið nýja heimasíðu. Ánægjulegt er að nefna að nú er aðgengilegt á heimasíðu Klifurhússins sívaxandi vöruframboð klifurbúðarinnar. Einnig er gaman að geta opnað á nýju ári með nýmálaða veggi sem gefur öllu ferskan blæ inn í nýtt ár. Við höfum einsett okkur að hlúa að fjölbreyttum hópi klifrara, þörfum og óskum hvers og eins, en Klifurfélag Reykjavíkur og Klifurhúsið gegnir mikilvægu hlutverki í því samfélagi sem við klifrarar tilheyrum. Á haustmánuðum nýliðins árs var Klifursamband Íslands stofnað og með því erum við orðin hluti af stærri heild innan vébanda Íþróttasambands Íslands, sem er ánægjulegt og mikilvægt skref fyrir íþróttina. Klifur var aftur á dagskrá Reykjavík International Games og var ánægjulegt hvað okkar grein fékk mikla athygli og þá sérstakega sá fjöldi sem fylgdist með beinni útsendingu í sjónvarpi. Gaman er að geta þess að á næstu leikum sem eru fyrirhugaðir í febrúarmánuði næstkomandi þá getum við vænst þess að fá erlenda keppendur til leiks og verður áhugavert að fylgjast með hvernig okkar fólki vegnar í glímu við þá. Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að klifrarar stálu senunni sem nýliðar á Ólympíuleikunum sem voru haldnir í Tokýó í sumar og myndaðist mikil spenna og umræða í kringum það. Það varð ekki til þess að draga úr stemmningunni að RÚV sýndi frá klifri þaðan, þar sem Hjördís og Bjarnheiður lýstu frá úrslitum kvenna í leiðsluklifri. Klifur er klárlega komið á kortið og nú þarf að fylgja afreksstefnu Klifursambandsins eftir og ná að koma fyrsta keppanda í klifri frá Íslandi á Olýmpíuleikana eftir 10 ár. Einnig er vert að nefna að Klifurhúsið hóf samstarf við Primal Iceland á nýliðnu ári varðandi sérstakar styrktar- og liðleikaæfingar og von er á enn frekara samstarfi á þessu ári. Þá var haldið sérstakt Örþing sem heppnaðist vel og verður gaman að sjá hvernig vinnst úr því og hvert framhald á þeirri vinnu skilar okkur.
Fjárhagslegt sjálfstæði er grunnurinn að allri uppbyggingu til framtíðar og hefur rekstur Klifurfélags Reykjavíkur verið traustur undanfarin ár. Ráðdeild og aðhald hefur tryggt okkur sterkan rekstrargrunn og gert okkur kleift að byggja upp sjóð til að standa straum af þeim kostnaði, sem fylgir áætlunum félagsins um stækkun á komandi árum. Ég horfi bjartsýnn fram á veginn og hvet ykkur öll til að gera slíkt hið sama með von um að lífið geti aftur farið að ganga sinn vanagang.
Á þessum tímamótum sendi ykkur kæru félagar hugheilar nýárskveðjur og hlakka til samstarfsins á nýja árinu. Jafnframt vil ég þakka þeim fjölmörgu klifrurum og velunnurum félagsins sem stutt hafa starfsemi þess með einum eða öðrum hætti á árinu og gert starfið okkar ánægjulegt og árangursríkt. Sérstakar þakkir vil ég færa starfsfólki Klifurhússins og stjórn fyrir samfylgdina á árinu sem var að líða. Það er tilhlökkunarefni að takast á við allar þær áskoranir sem árið 2022 mun færa okkur og vonandi verður okkur öllum farsælt.
Með góðri kveðju,
Hilmar Ingimundarson, formaður.