Um leið og ég óska öllum gleðilegs árs, vil ég þakka fyrir góð samskipti og samvinnu á árinu
sem nú er að líða og hlakka til áframhaldandi samstarfs á nýju ári. Það hefur verið
ánægjulegt að gegna starfi formanns undanfarin 5 ár og fá að koma að því ötula
uppbyggingarstarfi sem Klifurfélag Reykjavíkur hefur leitt undanfarin ár með samheldnum
hópi starfsmanna og velunnara. Á nýju ári megum við vænta þess að þjónusta og aðstaða til
klifurs batni svo um munar eftir að við skrifuðum undir samning um leigu á viðbótarrými í
Ármúla 21 sem mun tvöfalda núverandi aðstöðu. Því til viðbótar fengum við helminginn
afhentan af stærstu gripasendingu sem hefur komið til landsins og er restin væntanleg á
næstu vikum ásamt dýnum í nýju aöstöðuna. Þannig er búið að eyða óvissu um
húsnæðismál félagsins um sinn. Núverandi samningur átti að renna út á fyrsta ársfjórðungi
þessa árs og er því gleðiefni að samningar hafi tekist við eigendur Ármúla 23 um
áframhaldandi veru okkar þar, þó aðeins sé um skammtímasamning að ræða.
Sterkari saman
Fjölmargir viðburðir og mót voru haldin á nýliðnu ári. Íslandsmeistaramótið var glæsilegt að
vanda sem og bikarmótið, að ógleymdu Reykjavik International Games sem er orðið fastur
og sístækkandi viðburður á dagskrá klifrara hér á landi. Þá var ánægjulegt að geta haldið
línuklifurmót, sem fór fram í nýjum vegg í Miðgarði í Garðabæ, og nýjungin hjá okkur þetta
árið var Deep Water Solo keppni á Sjómannadaginn, sem heppnaðist frábærlega í alla staði
og var skemmtileg viðbót við keppnisflóru okkar. Vonandi eigum við eftir að sjá þann
viðburð vaxa úr grasi á komandi árum. Við getum vissulega verið stolt af okkar klifurfélögum
og þeim árangri sem þeir hafa náð á árinu og er gaman að geta þess að á nýliðnu hófi um
Íþrótta-mann ársins 2022 í kjöri Sam-taka í-þrótta-frétta-manna voru þar í hópi bæði karl- og
kvenklifrarar frá Klifurfélagi Reykjavíkur, sem er afar ánægjulegur árangur. Þetta er í annað
sinn sem Klifursamband Íslands tilnefnir klifurkonu og -karl ársins. Verð-launa-af-hendingin
fór fram við há-tíð-lega at-höfn í Hörpu og var sýnt frá henni í beinni út-sendingu á RÚV.
Fjölmenn árshátíð fyrir starfsmenn og félagsmenn var haldin á vormánuðum 2022 og var
auðséð að mikil uppsöfnuð þörf var fyrir því að hittast og gleðjast saman utan veggja
Klifurhússins. Vonandi gefst okkur tækfiæri á að gera það oftar á nýju ári. Fjölmennt og
góðmennt var í 20 ára afmæli félagsins þann 13. febrúar síðastliðinn og kærkomið var að ná
að smala öllum formönnum félagsins saman á mynd í tilefni tímamótanna. Fullt hefur verið á
flest öll námskeið og umframeftirspurn hefur verið eftir að komast á sumarnámskeiðin hjá
okkur. Það er ánægjulegt þegar okkar góða starf er að skila sér en jafnframt erfitt að geta
ekki sinnt og fylgt eftir þeirri miklu eftirspurn sem hefur skapast á undanförnum árum. Við
ráðgerum að með auknu rými skapist aðstaða til að koma til móts við hinn aukna áhuga á
klifuríþróttinni með auknu framboði af námskeiðum. Í klifursamfélaginu er mikill
samfélagslegur auður sem við þurfum að sammælast um að hlúa að, styrkja og treysta enn
frekar.
Áhersla á fjölbreytni
Við höfum þurft að bregðast við og aðlaga okkur að aðstæðum hverju sinni.Það var afar
ánægjulegt að Covid heimsfaraldurinn rann sinn skeið hvað varðar afléttingu allra
takmarkana, en hann hafði sett sitt strik í þjónustu okkar undanfarin tvö ár. Reksturinn
gengur vel og fjárhagurinn er traustur og hefur það gert okkur kleift að ráðast í auknar
framkvæmdir og uppbyggingarstarf. Markmið okkar hefur verið að sýna ábyrgð í rekstri og jafnframt hlúa að fjölbreyttum hópi klifrara. Það hefur tekist. Við erum hreykin og glöð með okkar öfluga barna,- unglinga,- og afreksstarf, sem við munum halda áfram að styðja vel við, en jafnframt er mikilvægt að hlúa að hinum almenna klifrara sem má segja að hefur þurft að sitja eftir vegna húsnæðisvanda samhliða sístækkandi hóps iðkenda. Markmiðið er að gera enn betur á komandi árum og byggja enn frekar ofan á okkar frábæra starf. Við vinnum enn að því og eygjum enn von um að samningar náist um uppbyggingu á Toppstöðinni á komandi mánuðum; takist það væri framtíðarhúsnæði Klifurhússins og Klifurfélags Reykjavíkur tryggt.
Við hlökkum til að hitta ykkur og kynna hvað áunnist hefur á undanförnum vikum og með
hvaða hætti við hyggjumst halda áfram að byggja upp enn betra og öflugra samfélag fyrir
alla klifrara. Þetta gerum við saman líkt og við höfum gert á liðnum árum.
Gleðilegt ár
Kæru klifurfélagar!
Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka, nú gengin er sérhver þess gleði
og þraut, það gjörvallt er runnið á eilíðar braut.
Ég vona að árið 2023 verði okkur öllum farsælt. Þökkum og njótum hverrar stundar með því
fólki sem stendur okkur næst. Ég sendi ykkur og ykkar bestu nýárskveðjur með von um að
nýtt ár muni færa okkur öllum góða heilsu, gleði og gæfu við leik og störf.
Hilmar Ingimundarson, formaður