Öflug saman sem ein heild
Nýtt ár hefur litið dagsins ljós og áramót eru ákveðin tími til að staldra við og líta yfir farinn veg og hvað við höfum áorkað á nýliðnu ári. Það er einnig tími til að huga að framtíðinni og móta þau verkefni sem við viljum leggja áherslu á komandi mánuði.
Fyrst er rétt að nefna árangur sem náðst hefur í húsnæðismálum félagsins, en það varð félaginu mikil lyftistöng að ná að bæta rými í Ármúla 21 við húsakost félagsins, sem var löngu sprunginn. Félagið er nú rekið í þremur einingum á þremur stöðum, sem er töluverð þjónustuaukning frá því sem áður var. Álagið hefur dreifst og meiri áhersla verið lögð á fjölbreytni og bætta þjónustu við hinn almenna klifrara sem og afreksstarfið okkar. Það hefur dregist að fá tilskylin leyfi og vottorð til að geta opnað fyrir almenning, en nú sér loks fyrir endann á því. Þörfin á bættri aðstöðu var skýr og við finnum það nú hvað þarfir ólíkra hópa og getustiga skaraðist mikið. Að því sögðu þá er baráttunni fyrir betri aðstöðu hvergi lokið, því þótt einum kafla sé lokið er nógu öðru að sinna. Markmið nýs árs er að tryggja enn sem fyrr framtíðaraðstöðu félagsins og er Toppstöðin enn okkar fyrsti kostur. Staðan á því verkefni ætti vonandi að skýrast á allra næstu vikum og mun skera úr um áherslur á framtíðaraðstöðu félagsins.
Við getum litið stolt og glöð yfir farinn veg og þau fjölmörgu verkefni, sem hafa á unnist. Mikilvægt er að halda áfram og setja fram raunhæf markmið með skýra stefnu og vilja til að ná árangri. Þá er vert að minnast þess að uppbygging á barna- og unglingstarfi félagsins hefur vaxið ásmegin undanfarin ár og getum við vissulega verið stolt af árangri okkar félagsmanna hvert sem litið er. Einnig er mikilvægt að árétta það mikla starf sem áunnist hefur í afreksstarfi félagsins í tengslum við öflugt uppbyggingarstarf innan vébanda Klifursambands Íslands. Miklar framfarir hafa orðið á keppnishaldi og allri uppbyggingu og utanumhaldi á klifri hér á landi, sem er mikils vert og ber sérstaklega að þakka – vinna sem oft á tíðum fer alla jafna ekki mikið fyrir. Óeigingjarnt starf sjálfboðaliða, foreldra og velunnara verður seint ofmetið. Samvinna er lykilinn að árangri og saman getum við gert svo miklu meira. Það er gefandi að vera hluti af jafn öflugri heild sem samfélag klifrara er orðið og hefur það að markmiði að vinna saman að því að láta gott af sér leiða og bæta mannlífið um leið.
Að lokum vil ég nefna að klifur er fjölþætt og frábær íþrótt fyrir okkur öll og er aðstaða félagsins þannig orðin að allir eiga að geta verið með á sínum forsendum. Það er markmið okkar í stjórn félagsins og er verkefni okkar á nýju ári að fylgja því eftir, þannig að sem flestir geti fundið sér grundvöll til að stunda klifur og hafa gaman af. Ég óska ykkur öllum félagsmönnum, velunnurum, fjölskyldum þeirra og raunar landsmönnum öllum gleðilegt nýtt ár og hlakka til að takast á við þau fjölmörgu spennandi verkefni, sem bíða okkar á árinu.
Reykjavík, 3. janúar 2024.
Hilmar Ingimundarson